Sunday, January 31, 2010

Sherlock Holmes (2009)



Ég fór í bíó í síðustu viku á myndina Sherlock Holmes sem er leikstýrð af Guy Ritchie. Ég var búin að heyra mjög góða gagnrýni um myndina og ég hafi aldrei séð neina aðra Sherlock mynd þannig að ég var með ágætar væntingar til myndarinnar.

Hún fjallar um eins og örugglega allir vita rannsóknar manninn eða einkaspæjarann Sherlock Holmes (Robert Downey Jr.) og aðstoðarmanninn hans, lækninn Dr. John Watson(Jude Law). Myndin hefst á því þegar þeir ná loks að handtaka Lord Blackwood fyrir morð og galdra og loka þar með málinu þar til hann rís aftur upp frá dauðum! Blackwood byrjar að drepa aftur og hefst þá aftur eltingaleikurinn við Blackwood. Í samkeppni við unnustu Watson og heimskingjana í Scotland Yard þarf Sherlock að leysa úr vísbendingunum sem munu leiða hann að lokum að svarinu um hvað Blackwood hefur í huga. Inní þetta allt saman fléttast svarti galdur, spilling og auðvitað, einu ástinni í lífi Sherlocks, Irene Adler(Rachel McAdams).

Fyrst vil ég byrja á því að segja að leikararnir í þessari mynd eru frábærir og þá sérstaklega Robert Downey Jr. held líka að hann hafi unnið Golden Globe verðlaun fyrir frammistöðu sína í myndinni. Jude Law er frekar aumingjalegur sem passar vel í hlutverk Watson. En þrátt fyrir það er hann svo mjög nettur þegar kemur að öllum slagsmáls atriðunum. Rachel McAdams er góð í hlutverki sínu og útlitið ekki að verri endanum. Sá sem lék Blackwood kannast ég ekkert við en hann heitir Mark Strong. Hann hafði allavega útlitið fyrir þetta hlutverk en dökka hárið og skrítnu tennurnar pössuðu vel inní. Gæti verið að þetta hafi verið allt farði, það er nú margt hægt en hann var allavega mjög sannfærandi sem klikkaði svartagaldurs karlinn.

Þessi mynd var svolítið öðruvísi en kannski honum er lýst í upprunalegu sögunum. Hann er töluvert svalari (heitari?)og mun meira af slagsmálum held ég. En útlitið á myndinni var svo sannarlega flott. Kostnaðurinn hlýtur að hafa verið rosalegur en allir búningar, hús og bara allt umhverfið var óaðfinnanlegt! Myndin á að gerast í lok 18. Aldar, eða ég held það í London. Umgjörðin öll var samt svo mögnuð að maður gat varla trúað því að þetta hefði verið London, minnti mig svolítið á annan heim eins og úr mynd frá Tim Burton, kannski Sweeney Todd. Væri líka til í
vita hver kostnaðurinn við myndina hafi verið, allavega drjúgur. Ég var frekar upptekin að horfa á myndina og hlæja af henni svo ég tók ekkert sérstaklega eftir myndatökunni en mér fannst mjög töff hvernig slagmálsatriðin voru sýnd. Segja fyrst hvað hann ætli að gera og sýna um leið í slow motion og svo hverfa aftur yfir í raunveruleikann og sýna þetta hratt. Atriðið með slagnum við risann var þar mjög fyndinn.

Eiginlega var hún öll frekar fyndin. Allavega fíla ég þennan kaldhæðnis húmor sem Sherlock hefur og allt það sem hann gerir. Gera hundinn að tilraunadýri, veiða flugurnar og þegar hann analyserar unnustu Watson, sem var eiginlega eini karakterinn sem fór svolítið í taugarnar á mér. Watson er líka mjög fyndinn svona smá lúmskt eins og að skjóta eitthvað á Sherlock með ástarmálin hans. Lokaatriðið með uppgjörinu hvernig Blackwood fór að öllu þessu var líka mjög gott og svolítið svipuðum stíl og slagsmálin. Sherlock er þá að segja frá og á meðan sér maður hvernig þeir fara að þessu.

Eina sem mér fannst eiginlega asnalegt við þessa mynd er hvernig hún endaði. Eða hversu augljóst það er að það eigi eftir að verða framhald. Það er alveg hægt að benda aðeins að það verði önnur mynd en það hefði alveg eins geta komið texti sem sagði TO BE CONTINUED... sem er frekar kjánalegt.

En sem sagt, góð mynd í flesta staði og ekkert annað hægt að gera en að hrósa þessum leikurum! Mjög flott og fór fram úr mínum væntingum. Spurning um að tjekka hvað þessi mynd hafi kostað eða bara láta það eiga sig...

Tuesday, January 26, 2010

Bjarnfreðarson


Þessi mynd er leikstýrð af Ragnari Bragasyni og er framhald af sjónvarpsseríunum Nætur-, Dag- og Fangavaktinni. Hún var fyrir mér eins konar uppgjör þeirra og endalok. Ég er ekki búin að sjá neinn þátt í Fangavaktinni og bjóst því við að skilja ekki alveg söguþráðinn, en annað kom á daginn. Ég segi nú ekki að það hefði verið eins gaman ef ég hefði ekki séð neinn þátt en það var ekkert nauðsynlegt að hafa séð þá alla! Þetta er að mínu mati stór kostur við myndina Bjarnfreðarson.
Hún fjallar um þegar Georg Bjarnfreðarson losnar út úr fangelsi og þarf að hefja nýtt líf. Hann leitar til vinar síns Daníels en hjá honum býr einmitt Ólafur Ragnar. Þessar persónur eru auðvitað það sem gerir myndina og þættina svona góða. Þeir eru allt, allt öðruvísi en hvor annar bæði í útliti og hegðun. Myndin fjallar svo aðallega um það þegar Georg áttar sig fljótlega á því að hans sýn á lífinu er fáránleg og orsakast aðallega af móður hans, Bjarnfreði. Enn önnur persónan sem er öðruvísi en hinar en mér finnst þær samt svolítið of ýktar. Kannski þegar maður er búin að horfa á svona mikið af efni um þessar persónur verður það svolítið þreytt. Þetta var samt góður endir á þessum þáttum. Myndin var miklu dramantískari en þættirnir. Í fyrsta skiptið í öllum þáttunum, eftir að hafa hatað Georg allan tímann, þá byrjaði maður að vorkenna honum. Georg var líka ansi mikið í aðalhlutverki í myndinni svo það er ekki skrítið að grínið hafi minnkað smá, en það voru mörg atriði ansi góð! Eins og þegar konan hans Daníels var að syngja með fatlaða bróðir sínum í matarboðinu bókstaflega öskraði ég úr hlátri.

Söguþráðurinn var svosem ágætur en frekar hægur. Fannst eins og fyrir hlé að það væri voða lítið búið að gerast. Man að ég hugsaði að eina spennandi við hana þá var að vita hvernig Daníel ætlaði að redda sér út úr því að þykjast útskrifast sem læknir. En hún var töluvert betri eftir hlé að mínu mati. Það sem er líka búið að einkenna þættina tókst vel í myndinni, en það er að gera mann vandræðalegan. Það er eins og það sé keppni milli persónanna hvor gerir mann vandræðalegan. Georg með kjánaleg móment eins og þegar hann var að reyna vera góður við Ólaf en endaði á því að vera eins og kærastinn hans, Ólafur að vera bara misheppnaður yfir höfuð og svo Daníel fyrir endalausu lygarnar og fyrir að vera ein óákveðnasta manneskja landsins.

Myndatakan í þessari mynd er góð en það sem er betra við þessa mynd er hljóðið. Alveg eins og Ragnar sagði þá einblínir hann vel á að hafa hljóðið skýrt. Það meikar mjög mikið sens. Allavega fann ég stóran mun á Bjarnfreðarson og Jóhannesi útaf hljóðinu. Þetta eru kannski ekki sambærilegar myndir þar sem fjármagnið fyrir Bjarnfreðarson var töluvert meira, en samt á það ekki að skipta svo miklu um hljóðið. Eins og hann sagði þá vandaði hann líka upptöku ´hljóði í Börn og Foreldrar sem voru kostuðu mun minna en Jóhannes. Að hljóðið passi ekki við myndatökuna, er eins og hann sagði, mjög truflandi fyrir undirmeðvitundina og mættu íslenskir kvikmyndagerðarmenn alveg athuga þetta..

En þetta er sem sagt ágætur lokakafli af sögu þremenninganna. Ég er alveg spennt að sjá hvernig þessi nýja sería sem Ragnar Braga var að tala um að gera með sama genginu, útkoman verður örugglega góð. Verð líka að viðurkenna að mér fannst skemmtilegast að tala við Ragnar um myndina miðað við hina leikstjórana, held ég hafi allavega lært mest af honum!