Okei ég gat ekki sett þetta í svona sérstaka röð þannig að ég valdi bara topp 10 myndir, ekki í neinni spes röð! Sorry hvað þetta kemur seint..
Allavega hér er listinn:
Schindler‘s list(1993) . Þessi mynd frá Steven Spielberg hefur að mínu mati fengið verðskuldaða athygli. Á öllum listum yfir myndir sem allir þurfa að sjá eða topp 100 listum er Schindler‘s list nánast undantekningalaust ofarlega.
Myndin fjallar um Oskar Schindler og gerist í seinni heimstyrjöldinni. Við könnumst flest við söguna, Oskar fær gyðinga til að vinna fyrir sig sem ódýrt vinnuafl í verksmiðjunni sinni. Hann kemst að því að fyrir Gyðingunum er vinnan þeirra það sem bjargar þeim.
Myndin er svart/hvít sem minnir á að við erum að horfa á sögu frá þessum tíma. Þrátt fyrir að myndin er löng skilur hún engan eftir ósnortinn. Þetta er mynd sem maður gleymir aldrei, hún minnir okkur á hvað gerðist, minnir okkur á þá sem dóu af ástæðulausu og á þá sem reyndu að bjarga þeim.
Liam Neeson sem Oskar Schindler og Ben Kingsley sem leikur gyðing , sína báðir stjörnuleik í þessari mynd en sá sem mér finnst standa uppúr er Ralph Fiennes sem leikur nasistann Amon Goeth.
Enn og aftur, mynd sem allir ættu að sjá og hlýtur að teljast ein besta mynd sem hefur verið gerð.
Sponge Bob SquarePants the movie(2005).Þessi kjánalega, einfalda og fyndna teiknimynd fær mig til að hlæja í hvert skipti sem ég sé hana. Hún er um svampinn, Sponge Bob, og besta vin hans Patrick. Þeir leggja upp í leiðangur til að endurheimta kórónu Neptúnus konungs. Á leið sinni sigrast þeir á ýmsum hættum og verða, eins og af eigin sögn, að karlmönnum.
Myndin er byggð á þáttunum Sponge Bob sem komu fyrst út 1999 og gefur myndin þeim ekkert eftir. Nú hafa verið gefnar út tvær aðrar myndir um þessa frábæru persónu og vini hans. Nickeloden framleiða þættina sem eru afar súrir og steiktir sem mér finnst munurinn á teiknimyndunum frá t.d. Pixar. Þótt svo að bæði þættirnir og myndirnar eru gerð fyrir börn þá er húmorinn svo kjánalegur og gegn súr að maður getur ekki annað en hlegið! Kannski er þetta einhver einkahúmor hjá mér en þessi hugmynd, um að gera teiknimynd um svampdýr og besta vin hans sem er krossfiskur, láta hann búa á hafsbotni í ananas og vinna á hamborgarastað hlýtur að teljast gott ímyndunarafl.
Anchorman the legend of Ron Burgundy. (2004) Hún er örugglega ein fyndnasta grínmynd sem ég hef séð. Hún fjallar um sjálfselska fréttamanninn á channel 4, Ron Burgundy (Will Ferrell) og fréttaliðið hans. Myndin á að gerast á sjöunda áratugnum þegar karlrembur eins og Burgundy eiga ennþá erfitt með að sætta sig við að konur geta unnið mikilvæg störf líka. Þá kemur til sögunnar Veronica Corningstone (Christina Applegate) sem tekur við sem aðstoðarþulur. En það er ekki söguþráðurinn sem skiptir öllu máli í þessari mynd. Anchorman er frekar súr mynd með litlum söguþræði en það sem gerir hana svona góða eru persónurnar sem eru í henni. Steve Carell lék veðurfréttamanninn Brick og setti örugglega nýtt met fyrir steiktan karakter, en fast á eftir honum fylgja svo hinir í fréttateiminu. Svo má ekki gleyma öllum þeim ágætu leikurum eins og Seth Rogen, Ben Stiller, Jack Black, Vince Vaughn og Luke Wilson sem skjóta upp kollinum þarna inná milli, sumir í kannski 10 sekúndur.
En þrátt fyrir að söguþráðurinn er ekki mikill eru sum atriðin eru svo kostuleg eins og t.d. þegar þeir syngja Afternoon Delight, slagsmálaatriðið, flautusóló frá Burgundy og þegar hundinum var fleygt fram af brú. Hvert gullkornið á fætur öðru kemur og quote-in eru alltof mörg. Þetta og svo margt annað við þessa mynd gerir hana að þessari fyndnu, útúr steiktu og nett geggjuðu mynd sem hún er!!
Nightmare before Christmas (1993)er söngleikja teiknimynd eftir Tim Burton. Hún fjallar um Jack the Pumpkin king sem býr í Halloween heimi. Í þessum heimi er allt skuggalegt og ógeðslegt. Hann finnur heim sem er öfugt við þann sem hann þekkir, Jólaheiminn. Jack er staðráðinn í því að hann geti haldið jólin betur en þau eru nú þegar og rænir jólasveininum. Inní þetta fléttast svo ástarsaga milli Jack og tuskubrúðu. Þetta er líka teiknimynd sem er ólík myndunum frá Pixar. Hún er ekki kæfð með boðskap og höfðar ekki endilega til barna. Lögin í myndinni eru algjör snilld og söguþráðurinn fyndinn. Mér finnst þessi Tim Burton teiknimynd mun betri en Corpses Bride sem þó er ágæt.
En fyrir mér kemst ég ekki í jólaskapið nema ég sé búin að horfa á Nightmare before Christmas.
Clueless (1995)Þetta er frekar basic fyrir stelpur. Við höfum flest allar einhverja chick-flick mynd sem við getum horft á
aftur og aftur. Málið með Clueless er að hún er ekki bara einhver chick-flick, hún er skilgreiningin á hvað chick- flick mynd er!
Hún fjallar um ofdekruðu stelpuna Cher (Alice Silverstone) sem er í menntaskóla og vini hennar. Hún hjálpar nýju stelpunni(Brittany Murphy) í skólanum til að verða vinsæl sem snýr svo baki við Cher. Ótrúlegt! Þetta hljómar auðvitað eins og hver önnur drama sería um menntaskólakrakka eins og 90210 en Clueless er uppá einhverju efra stig. Ég get rétt ímyndað mér hversu mörgum stelpum hefur dreymt um að eiga fataskápinn hennar, bílinn hennar og búa í húsinu hennar. Silverstone passar frábærlega í þetta hlutverk en besti karakterinn að mínu mati er besta vinkona hennar Dee, sem leikin er af Stacey Dash. Ég hef aldrei séð Dash leika í annarri mynd, kannski er hún ekkert svakalega góður leikari en hún virkaði allavega vel í þessari mynd. Allavega..
Þessa mynd get ég séð aftur og aftur og ég er ekki sú eina!
Edward Scissorshands (1990) er önnur mynd á listanum mínum frá Tim Burton. Myndin gerist í einhvers konar fullkomnu úthverfi sem hann skapar svo snilldarlega. Hún er um næstum-tilbúnu uppfinninguna, Edward(Johnny Depp). Hann er manneskja sem var búinn til af uppfinningamanni sem deyr áður en hann nær að klára hann svo, eins og titillinn segir, í stað handa hefur hann skæri. Hann býr einn í skuggalegum kastala, sem er öðruvísi en fullkomni bærinn sem hann stendur við, þar til kona að nafni Peg, sem selur snyrtivörur, finnur hann. Hún býður hann velkominn inná heimilið sitt og í fyrstu taka allir vel á móti honum. Hann byrjar að klippa runna og hár hjá fólkinu í bænum þar til allt fer á annan veg. Edward verður ástfanginn af dóttur Peg, Kim sem er sú eina sem stendur með honum í gegnum allt.
Ég held þetta sé fyrsta myndin sem ég tók eftir því að myndatakan skiptir virkilega máli. Sjónarhornin eru oft frábær og tónlistin bætir þetta bara upp. T.d. atriðið þegar hann býr til snjóinn er svo sætt og hugljúft, og þar fangar tónlistin akkurat rétta stemningu.
Leikararnir eiga stórt hrós skilið fyrir þessa mynd. Tengslin milli persónanna og stemmningin sem myndast í þessari mynd er ótrúleg. Þessi heimur sem myndin á að gerast í er eins og bandarískt úthverfi í öfgakenndri mynd, og andstæðan við þar er svo kastalinn sem Edward bjó í. Algjörar andstæður eins og svo oft áður í myndum frá Burton, drungalegt og hlýtt, ljúft og grimmt og alsæll og hlédrægur.
En þó svo að Edward búi í þessum drungalega kastala hefur maður alltaf samúð með honum, því eina sem hann vill gera er að passa inní samfélagið.. og er það ekki það sem við öll viljum!
Little miss Shunshine(2006). Þegar ég horfði á þessa mynd fyrst hafði ég svo miklar væntingar til hennar. Hún hefði fengið frábæra dóma og allir voru að tala um hana. Ég horfði á hana í frekar fýldu skapi því mér var sagt að hún væri ótrúlega fyndin og sæt en þegar ég horfði á hana fannst mér hún ömurleg. Þetta var allavega það fyrsta sem mér datt í hug þegar hún kláraðist.
Eftir því sem leið á myndina fannst mér hún sorglegri og sorglegri, frændinn er þunglyndur, pabbinn er svikinn, bróðirinn missir af draumnum sínum, afinn er heróín sjúklingur og litla stelpan vinnur ekki keppnina! En svo horfði ég á hana í annað sinn og sá hversu gaman maður hafði af henni. Allir þessir hlutir skapa persónurnar sem eru í myndinni og gerir hana fyndna. Þessi óútreiknanlega mynd um þessa einstaklega óheppnu fjölskyldu fær mann til að hlæja og gráta á sama tíma. Hún er keyrð áfram á fáránlega góðum karakterum og ekkert atriði í myndinni er tilgangslaust. Hún er frekar súr og fjallar um ansi jarðbundna hluti en svo gerist eitthvað svo kjánalegt eins og að geyma afann í skottinu eða bara þegar pabbinn var almennt að tala þá getur maður ekkert annað en bara horft á með öðru auga, það er bara of vandræðalegt! Það er samt það sem gerir hana svo skemmtilega, að hún sé ekki með þennan tíbýska ameríska endi og svo eitt af því besta við þessa mynd er að hún nær einhvern veginn að forðast allar klisjur þó svo að söguþráðurinn er einfaldur.
Hin 7 ára gamla Olive(Abigail Breslin) fær að taka þátt í fegurðarsamkeppninni, Little Miss Sunshine, en til þess þarf slitrótta fjölskyldan hennar að koma sér saman og ferðast til Redondo Beach, CA. Þegar þeim loks tekst að komast á áfangastað verður myndin bara betri því þegar Olive stígur á svið er ekki annað hægt en að grenja úr hlátri.
Þessi ótúrlega fjölbreytti leikarahópur smellpassar saman í myndinni en stjarna myndarinnar er tvímannalaust, Abigail Breslin. Hún fer á kostum sem hin saklausa Olive.
Slumdog Millionaire (2008) þessi óskarverðlauna mynd fjallar um Indverjann Jamal sem tekur þátt í Viltu vinna miljón þættinum í Indlandi. Hann kemst í stólinn og kemur öllu á óvart með hversu langt hann kemst. Eftir nokkrar spurningar er þátturinn búinn og hlé er tekið. Hann er leiddur inn í yfirheyrslu herbergi þar sem hann er barinn og sakaður um svindl. Jamal fer að útskýra hvers vegna hann vissi svörin og maður er leiddur í gegnum ævi hans í fátækrahverfunum í Mumbai. Sagan sýnir mjög vel hversu ólíkur Vestræni heimurinn og hverfið í Mumbai. Hún fjallar líka um þennan strák sem tapar öllu, fjölskyldu, heimili og stelpunni sem gerir hana átakanlegt og svolítið óhugnanlega. Getur verið oft erfitt að sjá svona mikla fátækt og hversu erfitt krakkarnir hafa það þarna. Mér finnst hún mjög vel tekin og ná vel til manns, mjög raunverulegt.
Tónlistin í myndinni er hreint út sagt frábær og tók ég sérstaklega eftir því hversu mikið hún hefur að segja í þessari mynd. Endaatriðið er svo ekkert annað en snilld þar sem klassíska Bollywood senan kemur.
Rocky Horror Pictureshow. (1975) Þessi mynd er einstök. Myndin er frá 1975 um nýtrúlofað par sem er á leið sinni til gamals
kennara síns og lendir í óveðri. Þau staulast að einhverjum kastala þar sem enginn annar er Dr. Frank-N-Furter býr með þjónustufólki sínu. Þau lenda í miðri veislu þar sem fagnað er nýrri sköpun hans Rock Horror, fullkomna manninum sem hann bjó til. Góður söguþráður þar sem geimverur, transar og tónlist koma við sögu. Öll klikkunin á bak við karaterana og tónlistina er svo frábær og súr. Þetta show sem maður er kominn inní er engu líkt og ég get ekki annað en sungið með og hlegið.
Tim Curry er snilld í þessari mynd og á algjörlega senuna! Fáránlega fyndin fötin hans og stíllinn, hvernig hann gengur og bara talar. Leikarinn sem leikur Brad, Barry Bostwick, hef ég aldrei séð í annarri mynd en karakterinn er mjög góður, þessi stífa týpa sem kyssir ekki kærustuna og er lúmskt samkynhneigður en er forvitinn að vita hvað er að gerast í kastalanum, gefur eftir Doktornum og verður svalur í lokin. Verð samt að nefna innkomu Meatloaf sem er aðeins of nett! Eina var að hann hefði mátt lifa aðeins lengur.
Pulp Fiction. (1994) Enda þetta svo á einni klassík sem örugglega á heima á flestum listum yfir topp 10 eða 100 myndir. Hún er bara of svöl.
Átti í raun erfitt með að velja á milli mynda Tarantino myndanna Reservoir Dogs, Kill Bill, Sin City eða þessa en ég held að þessi standi uppúr. Get líka sagt með sönnu að ég hlakka til að sjá Inglorious Bastards. En Pulp Fiction er vel skrifað handrit sem fléttar margar sögur, hver annarri betri, saman í eina. Tónlistin er bara til að undirstrikað kúlið þótt persónurnar segja nóg. Hún hittir alltaf svo vel á þegar senurnar eru að klárast eins og í síðasta diner atriðinu.Samtölin eru fáránlega töff og yfirveguð sem gerir þau fyndin á sama tíma. Atriðið með samtalinu áður en John Travolta og Samuel L. Jackson fara inní íbúðina í byrjuninni er mjögfyndið og svalt sérstaklega þegar maður veit hvað þeir eru að fara gera, atriðið inní íbúðinni með vitnunina í biblíuna, dansinn hjá Umu og John og svo þegar gaurinn er skotinn í bílnum.
Það getur varla klikkað að myndin verði epísk þegar leikararnir eru svona góðir, svo sakar ekki að hafa góðan leikstjóra!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Flottur listi og skemmtileg umfjöllun. 9 stig.
ReplyDelete