Horfði á aðra Dogme mynd um daginn til að kynna mér þetta aðeins betur. Elskar dig for evigt varð fyrir valinu og er hún Dogme mynd númer 28. Hún er frá árinu 2002 og Susanne Bier leikstýrði henni. Þetta er með frægari Dogme myndum sem hefur verið gerð og varð mjög vinsæl í Danmörku. Myndin gerist í Kaupmannahöfn og eins og allar Dogme myndir, í nútíð. Læknirinn Niels (Mads Mikkelsen) er giftur Mariu(Paprika Steen) og eiga þau 3 börn saman. Cecilie(Sonja Richter) er unnusta Joachims(Nicholaj Lie Kaas) og eru þau að fara gifta sig. Þegar Jaochim, sem ætlar í skíðaferð, er nýbúinn að kveðja Cecilie lendir hann í bílslysi. Maria keyrir á hann og hann er fluttur á spítalann. Þegar komið er á spítalann tekur maður Mariu, Niels sem vinnur á spítalanum á móti Joachim. Joachim vaknar daginn og þá kemur í ljós að hann er lamaður fyrir neðan háls. Reiðin hjá Joachim byggist hratt upp og neitar að þiggja hjálp frá Cecilie og segir að hann vilji ekki að hennar líf endi líka eins og hans. Maria er algjörlega í rusli eftir þetta en Niels reynir að hugga hana og biður Cecilie hjálp sína og segir henni að hringja í sig ef það er eitthvað sem henni vantar. Cecilie reynir allt sem hún getur til að ná til Joachims en hann talar ekki við hana og biður læknana um að leyfa henni ekki að heimsækja sig á spítalann. Cecilie byrjar að hringja í Niels og leita eftir huggun hjá honum. Þau byrja að hittast og eitt leiðir af öðru þangað til að lokum verða þau ástfangin. Neils heldur því framhjá konunni sinni og að lokum þarf hann að velja á milli fjölskyldu sinnar
og Cecilie. Sektarkennd er mjög áberandi í þessari mynd. Maria kennir sér um að hafa keyrt á Joachim, Niels er fullur sektarkenndar því hann er að ljúga af fjölskyldunni sinni og Cecilie því hún er að eyðileggja fjölskyldu og halda framhjá kærastanum sínum.
Þrátt fyrir að Nicholaj er ekki beint með stærsta hlutverkið og þarf ekki að hreyfa sig mikið þá er hann mjög góður í myndinni. Hann leikur þetta mjög vel og fær samúð manns en maður verður líka pirraður á honum. Mads Mikkelsen er ekki með einhvern stórleik í þessari mynd en mér fannst samt allir leikararnir skila sínu ágætlega.
Mér fannst ég taka minna eftir því í þessari mynd að myndavélin er ekki á fæti heldur er haldið á henni miðað við í Festen. Lýsingin var heldur ekkert athugunarverð og að mörgu leiti virkaði þessi mynd bara eins og venjuleg mynd en ekki Dogma mynd. Eina sem ég tók eftir var að það hefði mátt vera tónlist á sumum stöðum sem ekkert er hægt að hafa tónlist út af Dogme. Reyndar var Cecilie þrisvar í myndinni að hlusta á tónlist og þá kom hún inn eins og hún væri dubbuð inn, sem ég hélt að mætti ekki. Það hefði líka alveg mátt sleppa þessari tónlist því hún var virkilega leiðinleg og passaði bara ekkert inní senurnar, gerði myndina bara langdregna.
Titillinn er samt frekar athyglisverður og kaldhæðinn. Elsker dig for evigt þýðir Elska þig að eilífu, sem er loforð sem enginn veit hvort hann getur haldið. Maður veit ekkert hvað gerist í framtíðinni. Cecilie hafði lofað Joachim að elska hana að eilífu áður en hann lenti í slysinu en þau hættu saman og Niels hafði lofa konunni sinni að elska hana en hann varð ástfanginn af annarri konu.
Myndin í heild sinni er kannski ekkert mikil skemmtun en mjög góð engu að síður. Hún var svolítið fyrirsjáanleg og svo það asnalegasta við þetta er að á hulstrinu er Cecilie og Niels að kyssast þannig að ég vissi að þau myndu vera eitthvað saman í myndinni. Myndin lætur mann samt hugsa svolítið um lífið og að það getur skyndilega horfið frá manni. En eins og ég sagði, stundum frekar langdregin og ég myndi ekki nenna að horfa á hana aftur en ég mæli samt engu að síður með henni.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Góð færsla. 6 stig.
ReplyDelete